Lánshæfismat Landsvirkjunar lækkað

Matsfyrirtækið Moody's Investor Service hefur lækkað lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar vegna erlendra skuldbindinga úr Baa1 með neikvæðum horfum í Baa3 með stöðugum horfum. Lánshæfi á innlendum skuldbindingum lækkar einnig úr P-2 í P-3. Lækkunin kemur í kjölfar sambærilegrar lækkunar ríkissjóðs.

Hefur neikvæð áhrif á aðgang að nýju lánsfé

Landsvirkjun fékk fyrst lánshæfiseinkunn árið 1998 og hefur ávalt haft sömu einkunn og ríkissjóður hjá Moody's, að því er segir í tilkynningu. Í lánssamningum Landsvirkjunar eru engin ákvæði sem kalla á uppsögn eða breytingar þó að lánshæfismat lækki. Breytingin nú hefur því engin áhrif á vaxtakjör á eldri lánum fyrirtækisins. Breytingin hefur hins vegar, að öllu öðru óbreyttu, neikvæð áhrif á aðgengi Landsvirkjunar að nýju lánsfjármagni á ásættanlegum kjörum, samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun.

Laust fé Landsvirkjunar um 340 milljónir dala

Á vef Landsvirkjunar kemur fram í frétt frá 28. október sl. að laust fé fyrirtækisins nemi um 340 milljónum dala, jafnvirði um 40 milljarða króna, sem dugi til að byggja tæpar tvær Búðarhálsvirkjanir. Þá sé eigið fé Landsvirkjunar tæplega 180 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 31,2%.

Þá kemur fram að erlendir lánsfjármarkaðir séu lokaðir íslenskum aðilum vegna sérstakra aðstæðna sem snúi að íslenska ríkinu. „Á meðan ástandið er með þeim hætti er óábyrgt af hálfu Landsvirkjunar að ráðast í nýjar framkvæmdir nema fyrirtækið hafi fjármagnað þær að fullu með nýjum langtímalánum. Að því er unnið,“ segir á vef Landsvirkjunar.

Landsvirkjun þarf að endurfjármagna sig 2012

Friðrik Sophusson, fyrrverandi forstjóri Landsvirkjunar, sagði í samtali við Morgunblaðið í október að á meðan Landsvirkjun sé ekki að fara í ný verkefni og þurfi ekki á lánum að halda hafi lánshæfið enga þýðingu. „Í þeim lánasamningum sem eru í gildi er ekkert sem gerir það að verkum að þeir verði uppsegjanlegir þó að lánshæfiseinkunn fyrirtækisins sé slæm þessa stundina. Það hefur hins vegar þýðingu að lánshæfiseinkunn ríkisins batni því þá mun hún væntanlega batna hjá Landsvirkjun áður en fyrirtækið þarf að endurfjármagna sig á árinu 2012,“ segir Friðrik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK