Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, útilokar það að líkur séu á því að önnur efnahagslægð ríði yfir Bandaríkin á næstunni. Var Strauss-Kahn spurður að því hvort hann teldi líkur á öðru samdráttarskeiði í Bandaríkjunum þegar stjórnvöld hætta að veita fyrirtækjum aðstoð á næsta ári, var svarið einfalt: nei.
Srauss-Kahn bætti síðan við að auðvitað væri ákveðin hætta fyrir hendi en hann teldi að það myndi ekki gerast. Þetta kom fram í máli framkvæmdastjórans á fundi Asíuríkja í Singapúr í morgun.
Hann segir að útlit sé fyrir að efnahagsbatinn sé á næsta leyti. Að öllum líkindum verður almennt hagvöxtur í heiminum á árunum 2010 og 2011 en kannski minni heldur en var fyrir kreppu.