Kanadíska orkufyrirtækið Magma Energy Corp, sem meðal annars á hlut í HS Orku, tapaði tæplega 2,7 milljónum Bandaríkjadala, 338 milljónum króna, eða einu senti á hlut á fyrsta ársfjórðungi rekstrarársins, júlí-september. Á sama tímabili í fyrra nam tap félagsins 829.860 dölum.
Tekjur af orkusölu námu rúmlega einni milljón dala í fjórðungnum. Í fyrra var félagið ekki með neinar rekstrartekjur.
Ross Beaty, stjórnarformaður og forstjóri Magma, segir á vefnum Oilweek að Magma hafi vaxið hratt á síðasta ársfjórðungi með yfirtökum á Íslandi, Nevada og Suður-Ameríku. Auk þess sem fyrirtækið hafi staðið fyrir hlutabréfaútboði. Alls söfnuðust 88 milljónir dala í útboðinu.
Haft er eftir Beaty að samningar félagsins á Íslandi muni skila félaginu 43% eignarhlut í stærsta jarðvarmafyrirtækinu í einkaeigu á Íslandi.