Heildarkröfur tæplega 6500 milljarðar

Heildarkröfur í þrotabú Landsbankans nema tæplega 6500 milljörðum króna. Þetta kemur fram í kröfuskrá slitastjórnar Landsbankans sem Morgunblaðið hefur undir höndum. Stærsta einstaka krafan er frá tryggingasjóði innistæðueigenda í Bretlandi og nemur tæplega 926 milljónum punda.

Langstærstur hluti krafnanna er tilkominn vegna Icesave-reikninganna en tryggingasjóðir Hollands og Bretlands gerðu kröfu fyrir hönd 350 þúsund eigenda Iceave-reikninga.

Forgangskröfur í þrotabú Landsbankans nema 1273,5 milljörðum króna.  Langstærstur hluti forgangskrafna er vegna breskra og hollenskra innistæðueigenda. Samkvæmt nýjasta mati skilanefndar Landsbankans nema eignir gamla bankans um 1195 milljörðum króna. Miðað við þær forsendur verða endurheimtur vegna forgangskrafna um það bil 94%. Því standa um 80 milljarðar út af. Þá er ekki tekið tillit til vaxtakostnaðar vegna láns tryggingasjóðs innistæðueigenda.

Kröfur í þrotabú Landsbankans voru í heild 12.053, en um það bil helmingur þeirra barst á síðustu tveimur dögunum áður en kröfulýsingarfrestur rann út. Ekki hefur tekist að fara yfir allar kröfur, en eitthvað er um að kröfuhafar lýsi kröfum í þrotabúið oftar en einu sinni. Kröfulýsingafrestur í þrotabú Landsbankans rann út 20. október síðastliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK