Útlitið í efnahagsmálum Eystrasaltsríkjanna er ekki bjart en þó er ástandið verst í Lettlandi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu, sem greiningardeild norræna bankans Nordea birtir í dag um Eystrasaltsríkin. Erfiðleikarnir á Íslandi eru barnaleikur í samanburði við ástandið í Lettlandi, lætur aðalhagfræðingur bankans hafa eftir sér í norskum fjölmiðlum í dag.
Steinar Juel, aðalhagfræðingur Nordea, segir við norska blaðið Dagens Næringsliv, að samdrátturinn í Lettlandi sé gríðarlegur og einkaneysla hafi dregist saman um 40%. Þá standi yfir gríðarlegur niðurskurður á rekstri hins opinbera. Þá hafa laun opinberra starfsmanna lækkað að jafnaði um 36% á árinu. Óttast er að þessi niðurskurður hafi mikil félagsleg áhrif. Boðað hefur verið til þingkosninga í haust og er óttast að það muni enn auka á óstöðugleikann.
Því er spáð að atvinnuleysi verði 19,5% á næsta ári og á þriggja ára tímabili frá 2008 til 2010 dragast saman um 25%.
Nordea segir að á Íslandi hafi gengisfall íslensku krónunnar örvað útflutning og ferðaþjónustu og þannig dregið úr áhrifum bankahrunsins. Lettnesk stjórnvöld hafa hins vegar haldið gengi gjaldmiðilsins stöðugu en brugðist við fjármálakreppunni með niðurskurði hjá hinu opinbera. Margir telja þó að ekki verði hægt að frysta gengið til lengdar og hrynji það munu erlendir bankar, sem eiga talsverðar eignir í Lettlandi, tapa miklu.
Norrænir bankar hafa haslað sér völl í Eystrasaltsríkjunum á undanförnum árum. Sænsku bankarnir SEB og Swedbank hafa lánað mikið fé til Lettlands og eru m.a. 3,1% útlána SEB og 4,4% útlána Swedbank þar.