Saga Investments kaupir Íslenska erfðagreiningu

Íslensk erfðagreining
Íslensk erfðagreining mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Greiðslustöðvun sem deCODE, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar hefur óskað eftir í Bandaríkjunum, er eingöngu í nafni deCODE genetics Inc. en nær ekki til dótturfélaga þess, þ.m.t. Íslenskar erfðagreiningar. Undirritaður hefur verið samningur við bandaríska félagið Saga Investments LLC um kaup á Íslenskri erfðagreiningu og allri starfsemi þess.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá deCODE.

DeCODE væntanlega í slitameðferð

Fram kemur í tilkynningunni, að á undanförnum mánuðum hafi stjórn deCODE skoðað fjölmarga kosti til að endurskipuleggja rekstur félagsins, þar á meðal sölu á einstökum rekstrareiningum og þróunarlyfjum, reynt var að semja við eigendur útistandandi breytanlegra skuldabréfa og selja nýtt hlutafé.

Niðurstaða þessarar vinnu sé sú að undirritaður hefur verið samningur við bandaríska félagið Saga Investments um kaup á Íslenskri erfðagreiningu og allri starfsemi þess.

Saga Investments er fjárfestingarfélag í eigu Polaris Venture Partners og Arch Venture Partners, sem eru þekktir fjárfestar í Bandaríkjunum á sviði líftækni.

Samningurinn er gerður í samræmi við grein 363 í bandarískum gjaldþrotalögum, en samkvæmt greininni er gildistaka samningsins háð ýmsum skilyrðum, þar á meðal samþykki dómstóla og því að fram fari gagnsætt og opinbert uppboðsferli á vegum gjaldþrotadómstólsins þar sem öllum áhugasömum aðilum verði gefinn kostur á að bjóða í eignir og starfsemi ÍE, í samkeppni við það bindandi tilboð sem nú liggur fyrir.

Gert er ráð fyrir að eftir að söluferli á ÍE sé lokið og endanlegur kaupsamningur hafi komist á, fari móðurfélagið í slitameðferð með samþykki gjaldþrotadómstólsins. Miðað við fjárhæð skulda móðurfélagsins er afar ólíklegt að hluthafar deCODE fái úthlutun af söluverðmæti eigna þess.

Stefnt að óbreyttum rekstri Íslenskrar erfðagreiningar

Samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri erfðagreiningu hyggjst  tilboðsgjafar í reksturinn halda starfsemi félagsins í sama horfi og verið hefur.

DeCODE  hefur einnig gert samkomulag við Saga Investments um tímabundna fjármögnun til að standa straum af kostnaði við rekstur fyrirtækisins á greiðslustöðvunartímanum. DeCODE gerir ráð fyrir að þjónusta við viðskiptavini og samstarfsaðila Íslenskrar erfðagreiningar raskist ekki á því tímabili.

Líklega skráð af Nasdaq

Bréf deCODE eru skráð á Nasdaq verðbréfamarkaðnum í New York. Reiknað er með að Nasdaq muni nú skrifa deCODE bréf um afskráningu í kjölfar þess að félagið hefur óskað eftir greiðslustöðun. 7 daga kærufrestur er veittur, sem þýðir þá að í a.m.k. 7 daga verða áfram viðskipti með bréfin á Nasdaq.

Gengi hlutabréfa deCODE hækkaði  um 15% í viðskiptum í gærkvöldi og var skráð 23 sent í lok dags. Bréfin hafa lækkað jafnt og þétt í verði síðasta mánuðinn eftir að hafa hækkað talsvert í haust. 

Kári Stefánsson er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar
Kári Stefánsson er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK