Lán vegna Icesave hafa hækkað um 56 milljarða króna frá því 22. apríl en kröfur innlánstryggingasjóðs voru settar fram íslenskum krónum miðað við gengi krónunnar þann dag. Innlánstryggingasjóður fær að hámarki 674 milljarða króna óháð gengisþróun íslensku krónunnar. Skuldir vegna Icesave-samningsins eru hins vegar í pundum og evrum. Gjaldeyrisáhætta íslenska ríkisins hefur því verið aukin með því að festa hámarks endurheimtur úr þrotabúi Landsbanks í íslenskum krónum. Þetta þýðir að mat á bæði skuldastöðu og áhættu hefur gjörbreyst. Þetta kemur fram í nýju vefriti IFS Greiningar.
Þar kemur fram að fyrirhugaðar skattabreytingar eigi að skila íslenska ríkinu 50 milljörðum króna og afgangur af vöruskiptum hefur verið 43,7 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins.
„Á næstu árum er þörf á afgangi af vöruskiptum til að geta staðið undir greiðslum vegna erlendra skulda þjóðarbúsins. Icesaveskuldin er aðeins hluti af heildar erlendum skuldum þjóðarbúsins og vekur því gjaldeyrisáhætta vegna Icesave-samnings ugg. Í dag stendur lán vegna Icesave-samningsins í 765 milljörðum sem er meira en hálf landsframleiðsla. Á síðustu árum hafa margir Íslendingar brennt sig illa á gjaldeyrisviðskiptum og óútskýrt af hverju ríkið taki framangreinda áhættu," að því er segir í vefriti IFS Greiningar.