Greining Íslandsbanka telur litlar líkur á því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækki vexti bankans á næsta vaxtaákvörðunardegi, þann 10. desember nk. Gengi krónunnar sé á svipuðum slóðum og þegar síðasti vaxtaákvörðunardagur bankans var.
„ Hins vegar verður næsti vaxtaákvörðunarfundur haldinn í aðdraganda annarrar endurskoðunar áætlunar AGS og stjórnvalda, og líklegt að Seðlabankinn vilji bíða með frekari slökun á peningalegu aðhaldi uns hún er frá.
Auk heldur hefur áhættuálag á krónueignir aukist nokkuð frá upphafi mánaðar ef marka má þróun 5 ára skuldatryggingaálags á ríkissjóð, en álagið hefur hækkað um nærri 50 punkta frá upphafi mánaðar og er nú u.þ.b. 390 punktar. Líklegasta skýring þess er lækkun lánshæfiseinkunnar Moody's fyrir ríkissjóð í síðustu viku," að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.
Næsta vaxtaákvörðun eftir desemberákvörðunina er 29. janúar næstkomandi.