Evrópski seðlabankinn hefur tilkynnt að hann muni draga úr aðgerðum sínum til varnar lausafjárkreppunni, af ótta við að auka á verðbólgu.
Jean Claude Trichet bankastjóri seðlabankans sagði ekki lengur þörf á jafn umfangsmiklum aðgerðum til að örva efnahagslífið og að fortakslaust yrði að nema úr gildi allar aðgerðir sem ógnuðu verðstöðugleika en evrusvæðið fór að rétta úr kútnum á þriðja ársfjórðungi.
Hafa sumir hagfræðingar varað við því að batinn eigi sér einungis rætur í ríkisaðstoð og óttast að kreppan láti sjá sig aftur þegar hún er afnumin. Trichet hefur sjálfur sagt að það sé of snemmt að kveðja kreppuna og hann vilji tryggja að viðskiptalífið verði hvorki of háð stuðningi frá ríkinu eða seðlabanka, því ljóst sé að batinn stafi að verulegu leyti af slíkum stuðningi.
Verðbólga á evrusvæðinu mælist nú 0,5% á ársgrundvelli en fór hæst í 4,1% í júlí á síðasta ári þegar olíuverð þá náði nýjum hæðum. Verðhjöðnun um 0.1% varð í fyrsta skipta á evrusvæðinu þegar orku og olíuverð féllu í sumar .