Nýja Kaupþing, sem er nú Arion banki, hagnaðist um 4,8 milljarða eftir skatta á tímabilinu 22. október til ársloka 2008. Gengishagnaður vegna nær 7% veikingar krónunnar á tímabilinu, nam rúmum 31 milljarði króna en virði útlána og útistandandi krafna dróst saman um 19,7 milljarða króna á tímabilinu.
Fram kemur að tekjur frá rekstri á tímabilinu hafi numið 31,4 milljörðum króna. Gengishagnaður var upp á 31,1 milljarð króna sem er sagður skýrast 6,8% veikingu íslensku krónunnar gagnvart gengisvísitölu Seðlabanka Íslands og neikvæðum gjaldeyrisjöfnuði bankans. Hreinar vaxtatekjur voru 4,2 milljarðar og hreinar þóknunartekjur 1,3 milljarðar. Skert greiðslugeta lánþega sem hafi einungis tekjur í íslenskum krónum hafi skilað sér í virðisrýrnun útlána í erlendri mynt en alls nam virðisrýrnun útlána og krafna á tímabilinu 19,7 milljörðum króna.
Í tilkynningu segist Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion banka fagna því að endurskoðuðu uppgjöri Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka, fyrir árið 2008 sé lokið.
„Uppgjörið staðfestir að bankinn hefur fest sig í sessi sem öflugt fjármálafyrirtæki sem er vel í stakk búið til að þjónusta íslensk heimili og fyrirtæki. Þá var styrkum stoðum skotið undir hinn nýja banka með samningnum milli íslenska ríkisins og skilanefndar Kaupþings í september sl. þar sem fjármögnun og lausafjárstaða hans var tryggð. “
Kostnaðarhlutfall bankans var 19,5% en að teknu tilliti til gengishagnaðar og óreglulegra liða í kostnaði er kostnaðarhlutfallið 49,5%.
Gjaldfærður kostnaður bankans vegna skuldbindingar við Tryggingarsjóð innstæðueiganda og fjárfesta nam 2,97 ma.kr og tekjuskattur nam 766 m. kr., en þar af koma til greiðslu tæpar 600 m. kr. á árinu 2010.
Fram kemur að eiginfjárhlutfall bankans (CAD hlutfall) nam 9,5% í árslok 2008 en að teknu tilliti til innbyggðra gengisvarna er hlutfallið 10,8% þar sem lögbundið lágmark sé 8%.
Heildareignir Nýja Kaupþings, nú Arion banka, voru 641,2 milljarðar í lok árs 2008 og eigið fé nam 76,9 milljörðum. Arðsemi eigin fjár var 39,4% miðað við heilt ár og hagnaður á hlut var 0,38 krónur.