Brynjar Níelsson, lögmaður Þjóðarhags, hóps fjárfesta sem vilja kaupa hlut bankans í Högum, gekk í dag á fund stjórnenda Arion banka, áður Nýja Kaupþings, þar sem hann kynnti áform félagsins. Brynjar segir að stjórnendur bankans hafi sagt að hlutur bankans í Högum væri ekki til sölu.
„Þeir sögðu að verið væri að leita lausna með fyrri eigendum Haga,“ segir Brynjar í samtali við Morgunblaðið.
Þegar Brynjar spurði hvers vegna hluturinn hefði ekki verið boðinn hæstbjóðanda vísuðu stjórnendur bankans í verklagsreglur, þar sem segir að að áframhaldandi þátttaka eigenda og stjórnenda byggist á því að þeir njóti trausts og þyki mikilvægir fyrir framtíð fyrirtækisins.