Fulltrúar Þjóðarhags, sem vilja kaupa Haga af Arion banka, áður Kaupþingi, munu síðdegis í dag ræða við bankastjóra Arion til að kynna áform félagsins og fá fram hver sjónarmið bankans eru.
Guðmundur Franklín Jónsson, forsvarsmaður Þjóðarhags, sagði við Morgunblaðið fyrir helgi, að fundarboðið væri merki um að bankinn ætli að bera hag almennings fyrir brjósti. Á fundinum fáist vonandi úr því skorið hvernig sölunni á Högum verði háttað; hvort farið verði í opið söluferli og Þjóðarhagur geti þá lagt inn tilboð.
Fram hefur komið að núverandi eigendur Haga og móðurfélagsins 1998 hafa frest til morguns til að koma með nýtt fjármagn í reksturinn.
Nú hafa 3845 manns skráð nafn sitt á vef Þjóðarhags og lýst þannig áhuga á að taka þátt í kaupum á Högum.