Seðlabankastjóri Evrópu, Jean-Claude Trichet sagði í dag að það væri of snemmt að lýsa því yfir að fjármálakreppan sé búin.
Trichet talaði á ráðstefnu í Madríd á Spáni í dag. Þar sagði hann að seðlabankinn sé kominn með áætlun um að draga til baka stuðning sinn við lausafjárstöðu fjármálakerfisins, þegar kominn verði tími á það. Sá tími sé hins vegar ekki kominn.
„Í dag er enn of snemmt að lýsa yfir endalokum fjármálakreppunnar. En þegar rétti tíminn kemur ætti ekki að vera neinn vafi um getu eða vilja seðlabanka Evrópu til þess að draga sig út," sagði Trichet.
Seðlabanki Evrópu mun veita frekari upplýsingar um það hvernig þetta verður gert á fundi þann 3. desember næstkomandi.