Fulltrúar embættis sérstaks saksóknara gerðu húsleit í höfuðstöðvum Byrs sparisjóðs í Borgartúni nú síðdegis, samkvæmt heimildum mbl.is.
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í lok október þá hefur Fjármálaeftirlitið vísað máli vegna láns sem Byr sparisjóður veitti eignarhaldsfélaginu Exeter Holding í október og desember 2008 til sérstaks saksóknara, en félagið var í meirihlutaeigu Ágústs Sindra Karlssonar lögmanns. Grunur leikur á að um umboðssvik hafi verið að ræða, en þau varða allt að sex ára fangelsi ef sakir eru miklar.
Málið snýst um 1,1 milljarðs króna lán sem Byr veitti Exeter Holding í tveimur hlutum, í október og desember 2008, eftir bankahrunið, til þess að kaupa 1,8 prósenta stofnfjárhlut í Byr á yfirverði, en ekkert hefur verið greitt af láninu.
Samkvæmt upplýsingum frá Byr er staða mála sú að rannsókn málsins er í gangi og liður í henni er að
starfsmenn sérstaks saksóknara komu til Byrs sparisjóðs til að fá
nánari upplýsingar um málið og hafa starfsmenn Byrs verið í fullu
samstarfi við þá.