Rekstrarfélag Kaupþings banka hf. hefur fengið nýtt heiti, Stefnir hf. Stefnir er dótturfélag Arion banka og starfrækir verðbréfa-, fjárfestingar og fagfjárfestasjóði.
Í fréttatilkynningu kemur fram að félagið er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki og um starfsemi þess gilda skýrar reglur um aðskilnað reksturs frá rekstri móðurfélags. Með nýju nafni vilja stjórnendur Arion banka og Stefnis undirstrika sjálfstæði félagsins og þann aðskilnað sem verið hefur í reynd á milli dótturfélags og móðurfélags.
Nafnabreytingin verður kynnt viðskiptavinum á næstu dögum. „Stefnir er stærsta sérhæfða sjóðastýringarfyrirtæki hér á landi með 13 starfsmenn. Virkar eignir í stýringu eru um 250 milljarðar króna. Viðskiptavinir Stefnis eru 20.000 fyrirtæki, stofnanir, lífeyrissjóðir og einstaklingar. Arion banki er söluaðili sjóða Stefnis," samkvæmt tilkynningu.