Í tengslum við rannsókn embættis sérstaks saksóknara á kaupum félagsins Exiter ehf á stofnbréfum í Byr sparisjóði haustið 2008 fóru fram húsleitir á tveimur stöðum í dag að undangengnum úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur. Yfirheyrslur í málinu hófust á sama tíma og standa enn, að því er segir í tilkynningu frá embætti sérstaks saksóknara.
Samkvæmt staðfestum upplýsingum sem mbl.is hefur fengið frá Byr sparisjóði komu fulltrúar embættis sérstaks saksóknara í höfuðstöðvar Byrs í Borgartúni. Samkvæmt óstaðfestum heimildum mbl.is var einnig farið inn í höfuðstöðvar MP banka. Það hefur ekki fengist staðfest hjá bankanum.
Rannsóknin tengist fjölda manns
Til rannsóknar er grunur um brot á auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga í tengslum við umrædda sölu á stofnbréfum og lánagerningum þeim tengd. Um er að ræða verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda manns.
Aðgerðirnar í dag voru nokkuð víðtækar og hófust með leit á tveimur stöðum samtímis kl. 10 í morgun. Af 22 starfsmönnum embættisins tóku flestir þátt í aðgerðunum auk tæknimanna frá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í lok október þá hefur Fjármálaeftirlitið vísað máli vegna láns sem Byr sparisjóður veitti eignarhaldsfélaginu Exeter Holding í október og desember 2008 til sérstaks saksóknara, en félagið var í meirihlutaeigu Ágústs Sindra Karlssonar lögmanns. Grunur leikur á að um umboðssvik hafi verið að ræða, en þau varða allt að sex ára fangelsi ef sakir eru miklar.
Málið snýst um 1,1 milljarðs króna lán sem Byr veitti Exeter Holding í tveimur hlutum, í október og desember 2008, eftir bankahrunið, til þess að kaupa 1,8 prósenta stofnfjárhlut í Byr á yfirverði, en ekkert hefur verið greitt af láninu.
Exeter er nú í eigu hóps stofnfjáreigenda í Byr, sem keyptu félagið af Sigurði Jónssyni fyrir 100.000 krónur, í þeim tilgangi að fá upplýsingar um viðskiptin sem félagið stóð í. Eigendurnir eru því ekki þeir sömu nú og þegar meint brot áttu sér stað.