Útflutningur á þjónustu á þriðja ársfjórðungi var samkvæmt bráðabirgðatölum 92,3 milljarðar en innflutningur á þjónustu 71,5 milljarðar. Þjónustujöfnuður við útlönd á þriðja ársfjórðungi var því jákvæður um 20,8 milljarða króna, samkvæmt útreikingum Hagstofunnar.
Mestur afgangur varð vegna samgangna eða um 11,9 milljarðar en afgangur vegna ferðaþjónustu reyndist vera um 10,9 milljarðar. Aftur á móti var halli á annarri þjónustu en samgöngum og ferðaþjónustu um tæpan 2,1 milljarð.
Það sem af er árinu er þjónustujöfnuður jákvæður um 30,6 milljarða króna. Á fyrsta ársfjórðungi var 1,7 milljarða króna halli á þjónustujöfnuði, 11,6 milljarða afgangur á öðrum ársfjórðungi og 20,8 milljarða afgangur á þeim þriðja.