Hagnaður Bakkavarar Group nam 4,2 milljónum punda, 838 milljónum króna, á fyrstu níu mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra nam tap samstæðunnar 55,9 milljónum punda, 11,2 milljörðum króna. Á þriðja ársfjórðungi nam tap Bakkavarar 14,1 milljón punda, 2,9 milljörðum króna, en á sama tímabili í fyrra nam tapið 19,6 milljónum punda.
Í tilkynningu kemur fram að handbært fé frá rekstri fyrir skatta, vexti og einskiptiskostnað vegna hagræðingaraðgerða eykst um 86% og nemur 13,3 milljörðum króna (66,5 milljónir punda).
Innlendir lánveitendur reiðubúnir til að framlengja gjalddaga til 2014
Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, segir í fréttatilkynningu að mikilvægum áfanga hafi verið náð í samningaviðræðum við lánveitendur um endurfjármögnun móðurfélagsins. „Við höfum átt í viðræðum við innlenda lánveitendur sem hafa yfir um 70% af skuldum móðurfélagsins að ráða og hafa þeir lýst yfir vilja til að framlengja gjalddaga skuldabréfaflokka og annarra lána félagsins til ársins 2014 en enn er unnið að útfærslu á kjörum og skilmálum samkomulagsins. Við gerum ráð fyrir að niðurstaða verði tilkynnt innan skamms. Fyrr á þessu ári var gengið var frá endurfjármögnun rekstrarfélaga samstæðunnar fram í mars 2012.
Við gerum ráð fyrir að viðskiptaumhverfið haldi áfram að vera krefjandi næstu misseri. Þrátt fyrir það erum við fullviss um að þær aðgerðir sem félagið hefur ráðist í, ásamt þeim vaxtarmöguleikum sem reksturinn býr yfir, muni skila enn betri afkomu á komandi árum," samkvæmt því sem forstjóri Bakkavarar segir í fréttatilkynningu.