Háttsettur embættismaður innan stjórnkerfisins í Dubai, eins furstadæmisins í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, segir efnahag ríkisins byggðan á breiðum grundvelli og hann sé ekki að hrynja. Mikið uppnám varð á fjármálamarkaði í Evrópu í dag þegar Dubai lýsti því yfir að ekki yrði greitt af tilteknum lánum í hálft ár.
Yfirlýsing Dubai leiddi til þess, að evrópskir fjárfestar fylltust óhug og seldu skuldabréf til að fjárfesta frekar í tryggum ríkisskuldabréfum. Helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu lækkuðu um rúm 3% í dag en margir óttast, að fleiri ríki grípi til svipaðra aðgerða og Dubai. Bandarískar kauphallir eru lokaðar í dag vegna þakkargjörðarhátíðarinnar.
Ahmed bin Saeed al-Maktoum, formaður fjárlaganefndar furstadæmisins, sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem segir að ákvörðun Dubai um að greiða ekki af skuldabréfum eignarhaldsfélagsins Dubai World í hálft ár hafi verið mjög vel undirbúin. Stjórnvöld hefðu gert sér grein fyrir því að viðbrögð fjármálamarkaða yrðu hörð.
Segir hann að ákvörðunin endurspegli sérstaka fjárhagsstöðu Dubai World. Hins vegar hefðu stjórnvöld orðið að grípa til aðgerða vegna skulda félagsins.
Hins vegar hafi mikill hagvöxtur í Dubai og annarstaðar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum undanfarin ár gert það kleift að leggja grunn að breiðu og sjálfbæru hagkerfi, sem þyrfti ekki eingöngu að reiða sig á auðlindir, svo sem olíu.
Dubai World á meðal annars fasteignafélagið Nakheel sem hefur staðið fyrir gríðarlegum byggingarframkvæmdum í furstadæminu undanfarin misseri.