Stjórn Byrs sparisjóðs hefur sent frá sér tilkynningu um að Ragnari Z. Guðjónssyni hafi verið veitt tímabundið leyfi frá störfum að eigin ósk sem sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs. Eins og fram hefur komið eru til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara viðskipti með stofnfjárhluti í Byr og var gerð húsleit fyrr í vikunni hjá Byr og MP banka vegna málsins. Auk þess sem fjöldi manns var og verður yfirheyrður vegna rannsóknarinnar.
„Hér með tilkynnist að Ragnari Z. Guðjónssyni hefur verið veitt tímabundið leyfi frá störfum að eigin ósk sem sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs. Tillaga hans var lögð fram í þeim tilgangi að skapa frið um starfsemi Byrs sparisjóðs og bregðast við þeirri erfiðu umræðu sem verið hefur um sparisjóðinn undanfarið.
Við störfum Ragnars tekur Jón Finnbogason, hdl., en hann hefur gegnt starfi forstöðumanns á fjármálasviði Byrs. Þetta var ákveðið á fundi stjórnar Byrs í gærkvöld.
Stjórn Byrs hefur óskað eftir áframhaldandi starfskröftum Ragnars við þá fjárhagslegu endurskipulagningu sparisjóðsins sem er í gangi . Stjórn sparisjóðsins vill jafnframt þakka starfsfólki Byrs fyrir það þolgæði sem það hefur sýnt á þessum erfiðu tímum í sögu sparisjóðsins. Rétt er að ítreka að þessi breyting hefur engin áhrif á starfsemi sparisjóðsins, starfsemi og þjónusta Byrs mun verða óbreytt," að því er fram kemur í tilkynningu frá stjórn Byrs.
Segir engin tengsl vera á milli Exeter Holdings og Húnahorns
Ragnar hefur einnig sent frá sér tilkynningu vegna rannsóknar embættis sérstaks saksóknara:
„Eins og fram hefur komið í fréttum fjölmiðla þá fóru fulltrúar embættis sérstaks saksóknara inn í höfuðstöðvar Byrs og óskuðu þar eftir aðgangi að gögnum. Tilefnið var gagnaöflun embættisins í tengslum við skoðun á lánveitingum Byrs til Exeter Holdings og tengdum viðskiptagjörningum.
Einnig var óskað eftir því að ég mætti sem sparisjóðsstjóri til skýrslutöku og veitti ákveðnar upplýsingar vegna þessa máls og gerði ég það fúslega. Ég vil ítreka að ég fagna því að málið sé skoðað og að öllum vafa verði í kjölfarið eytt um hvort rétt hafi verið að því staðið af hálfu sparisjóðsins eða ekki. Ég vil jafnframt árétta að engin tengsl voru á milli Exeter Holdings og Húnahorns (félags í eigu lykilstarfsmanna) áður en Exeter eignaðist bréf sem áður voru í eigu Húnahorns, í kjölfar veðkalls MP banka.
Það hefur vissulega verið erfitt fyrir starfsfólk Byrs að búa við óvissu vegna þessa máls. Ég legg höfuðáherslu á að friður megi ríkja um starfsemi Byrs sparisjóðs og að það mikla traust sem viðskiptavinir hafa sýnt okkur raskist ekki. Með það fyrir augum hef ég ákveðið að stíga tímabundið til hliðar sem sparisjóðsstjóri Byrs.
Stjórn Byrs féllst á tillögu mína þessa efnis á fundi í gærkvöldi og tekur ákvörðunin gildi nú þegar. Er það einlæg von mín að þessi ákvörðun geti orðið til þess að skapa frið um störf sparisjóðsins og orðið til þess að eyða allri mögulegri tortryggni vegna þessa máls. Ég ítreka að ég tel að störf mín fyrir Byr hafi í einu og öllu verið í samræmi við lög, enda hef ég unnið af metnaði og bestu samvisku fyrir sparisjóðinn.
Stjórn Byrs hefur óskað eftir því við mig að ég sinni áfram verkefnum er tengjast fjárhagslegri endurreisn sparisjóðsins.
Að lokum tel ég mikilvægt að skoðun embættis sérstaks saksóknara ljúki sem fyrst," að því er segir í yfirlýsingu frá Ragnari.