Samkomulag hefur náðst milli skilanefndar Landsbanka Íslands og Magnúsar Kristinssonar, eiganda Toyota á Íslandi, sem flytur inn Toyota og Lexus bifreiðar um að öll hlutabréf í félaginu verði seld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.
Þar kemur fram að fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans muni sjá um söluna og er unnið að undirbúningi hennar. Áhersla verði lögð á jafnræði fjárfesta.
Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að Toyota Motor Marketing Europe (TMME) hafi, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, veit samþykki sitt fyrir þessari afgreiðslu málsins – eða a.m.k. ekki andæft henni - en söluumboðið verður ekki selt til nýs aðila nema með þeirra samþykki.
Með þessu er ljóst að innflutningsfyrirtækið er á leið úr höndum Magnúsar Kristinssonar, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, sem keypti Toyota umboðið 20. desember 2005. Það var fyrirtæki hans Smáey ehf. sem keypti P. Samúelsson ehf. af Páli Samúelssyni og fjölskyldu fyrir um sjö milljarða króna en með í kaupunum voru fasteignir tengdar félaginu og var það Landsbankinn sem fjármagnaði kaupin á sínum tíma, að því er fram kom í Viðskiptablaðinu í dag.