Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í nóvember 2009 hækkaði um 0,74% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði hún 0,96% frá október. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 8,6% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 12,5%. Hefur verðbólgan, mæld á tólf mánaða tímabili ekki mælst jafn lítil og frá því í mars 2008 er hún var 8,7%.
Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,7% sem jafngildir 11,2% verðbólgu á ári (12,3% fyrir vísitöluna án húsnæðis), að því er segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.
Verð á fatnaði og skóm hækkaði um 3,4%
Verð á fötum og skóm hækkaði um 3,4% (vísitöluáhrif
0,20%) og verð á bensíni og díselolíu hækkaði um 3,5% (0,17%). Þá
hækkaði verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 4,2% (0,14%) og verð
dagvöru hækkaði um 0,6% (0,10%). Verð á flugfargjöldum til útlanda
lækkaði um 14,5% (-0,14%).
Meiri hækkun en spáð var
Hagdeild Landsbankans og IFS Greining spáðu því að vísitala neysluverðs myndi hækka m 0,5% í nóvember frá síðasta mánuði. Það hefði þýtt að tólf mánaða verðbólgan væri 8,4% en ekki 8,6% líkt og nú hefur komið í ljós.
Greining Íslandsbanka spáði því vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,6% í nóvember. Það hefði jafngilt 8,5% verðbólgu.
Hér er hægt að skoða nánari útlistun á vísitölu neysluverðs á vef Hagstofu Íslands