Bandaríkjadalur hélt áfram að lækka í gjaldeyrisviðskiptum í Asíu í morgun en dalurinn hefur ekki staðið jafn illa gagnvart japanska jeninu í fjórtán ár. Ef staðan verður áfram svona getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir japanskt efnahagslíf og útflutning landsins þar sem verð á japanskri vöru er þá ekki samkeppnishæft vegna hás gengis jensins.
Bandaríkjadalur fór í 84,82 jen í morgun en er nú 86,22 jen í gjaldeyrisviðskiptum í Tókýó. Í gær lokaði dalurinn í 86,53 jenum þegar viðskiptum lauk á gjaldeyrismarkaði í Lundúnum. Engin viðskipti voru á Wall Street í gær vegna þakkargjörðarhátíðarinnar.