Opinber fyrirtæki og stofnanir í Wales fá um 80% endurgreitt af innistæðum sínum hjá íslensku bönkunum, samkvæmt frétt á vefnum Walesonline. Þar kemur fram að lögregla og bæjarstjórnir í Wales hafi átt um 66 milljónir punda, 13,4 milljarða króna, inni á reikningum íslensku bankanna, þar á meðal hjá Heritable bankanum sem var í eigu Landsbankans.
Segir í fréttinni að kreppan hafi vakið upp spurningar um fjárfestingar opinberra aðila á fjármálamörkuðum. Oft hafi bæjarfulltrúar, sem ekki þekkingu til, fjárfest án þess að hafa fengið samþykki frá yfirmönnum sínum. Í mörgum tilvikum komi leiðbeiningar frá ráðgjöfum sem hafi ekki reynst starfi sínu vaxnir og ráðleggingar byggðar á skýjaborgum.
Kemur fram á Walesonline að Ernst and Young, skiptastjórar íslensku bankanna í Bretlandi, hafi staðfest að fjárfestar geti átt von á því að fá um 80% af fé sínu endurgreitt innan fárra ára.