Auður Arna Eiríksdóttir, útibússtjóri Byrs í Borgartúni, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttaflutnings í tengslum tengslum við skoðun á lánveitingum Byrs til Exeter Holdings og tengdum viðskiptagjörningum. Segist hún aðeins hafa fylgt fyrirmælum yfirmanna sinna.
„Gætt hefur nokkurs misskilnings í fréttaflutningi af málefnum Byrs síðustu daga og hefur mitt nafn að ósekju verið bendlað við þau mál. Hið rétta í málinu er að ég kom ekki á neinu stigi að ákvarðanatöku um lánveitingu til Exeter Holdings haustið 2008 né hafði ég vitneskju um hvaða forsendur lægju henni að baki. Við millifærslur í tengslum við viðskipti Exeter og MP banka fylgdi ég aðeins fyrirmælum yfirmanna minna og gerði það aukinheldur með fullri vitneskju þar til bærra eftirlitsaðila innan Byrs.
Ég hef ávallt sinnt mínum störfum af heilindum og með hagsmuni Byrs að leiðarljósi og því er það mér sérstaklega þungbært að gefið sé í skyn að ég hafi setið beggja megin borðs í einhverju máli sem varðar bankann. Staðreyndin er sú að ég bjó ekki yfir neinni vitneskju um að hagsmunir annarra kynnu að hafa verið teknir fram yfir hagsmuni Byrs. Rannsókn embættis sérstaks saksóknara verður að leiða það í ljós, hvort eitthvað slíkt hafi verið á ferðinni.
Ég vil einnig ítreka að persónuleg viðskipti mín voru eingöngu við MP Banka, sem hirti bréf mín eftir veðkall nokkru áður en þessi lánafyrirgreiðsla kom til. Ég hef aldrei átt í viðskiptum við Exeter Holding eins og ranglega hefur verið haldið fram í fjölmiðlum.
Ég vek einnig athygli á því að ég hef sinnt störfum hjá Byr í heilt ár frá því að mér voru falin umrædd verkefni, sem líta verður á sem viðurkenningu þess að ég hafi fylgt starfsreglum í hvívetna og verið í góðri trú að framfylgja fyrirmælum minna yfirboðara.
Ég hef aðstoðað embætti sérstaks saksóknara við gagnaöflun varðandi málið og þegar mætt til skýrslutöku hjá þeim. Ég veitti fúslega umbeðnar upplýsingar og tel að þar með sé málið komið í réttan og eðlilegan farveg og fagna því jafnframt að málið verði til lykta leitt," að því er segir í yfirlýsingu frá Auði Örnu.