Það mat sem lagt er á viðskiptin með hlut OR í HS Orku í árshlutauppgjöri OR er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Í því er að finna 962 mkr. varúðarniðurfærslu. Matið er staðfest af óháðum endurskoðendum OR. Þetta segir Guðlaugur G. Sverrisson stjórnarformaður OR í fréttatilkynningu.
„Fullyrðingar um margra milljarða króna væntanlegt tap OR af viðskiptunum eru
rangar. Þær eru byggðar á þeim forsendum að um vanefndir samninga verði að ræða
og að hlutabréf í HS Orku, sem eru veð OR fyrir greiðslu, séu í raun talsvert
minna virði en í viðskiptum OR og Magma, sem var 6,31,” segir Guðlaugur.
“Í árshlutauppgjöri OR, sem birt var í dag, eru viðskiptin metin með eðlilegri
varúðarfærslu í ljósi þess að enn eru ekki allir fyrirvarar viðskiptanna
uppfylltir. Verði öllum fyrirvörum fullnægt og samningar gangi eftir, mun
verðmat sölu OR á hlut sínum í HS Orku einnig ráðast af endanlegu uppgjöri í
viðskiptum OR og Hafnarfjarðarbæjar og af því hvert verðmæti HS Orku verður
metið á hverjum tíma.”