Hagnaður af rekstri Icelandair Group eftir skatta var 4 milljarðar króna á síðasta ársfjórðungi en hagnaður var 4,4 milljarðar króna á sama tíma í fyrra. Fyrstu níu mánuði ársins var 1 milljarðs króna tap á rekstrinum eftir skatta en hagnaður var 3,1 milljarður króna á sama tíma í fyrra.
Í tilkynningu segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, að þetta ár sé líklega það erfiðasta sem þessi rekstrargrein hafi gengið í gegnum, og þess sjáist glögg merki í rekstri erlendra dótturfélaga þar sem verkefni hafi dregist saman og verð lækkað með tilheyrandi áhrifum á afkomu.
Björgólfur segir, að grunnrekstur Icelandair Group hafi gengið vel á þriðja ársfjórðungi og sjá megi bata í öllum hlutföllum rekstrarreiknings milli ára þar til komi að afskriftum og fjármagnsliðum.
Rekstrarmarkmið félagsins fyrir árið í heild, 6,5 milljarðar króna hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnskostnað, séu óbreytt. Hins vegar sé fjármagnskostnaður félagsins allt of hár og unnið sé hörðum höndum að því að lækka hann með því að breyta fjármagnsskipan.