Hlutabréfavísitölur í Sameinuðu arabísku furstadæmunum hafa fallið í morgun í kjölfar þess að byggingafyrirtækið Nakheel, sem er með höfuðstöðvar í Dubai, óskaði eftir því í gær að lokað yrði fyrir viðskipti með bréf félagsins í dag. Í kauphöllinni í Abu Dhabi nemur lækkunin 7,4% og 7,19% í Dubai.
Í Abu Dhabi voru það einkum hlutabréf í fasteignafélögum, fjarskiptum og orkugeiranum sem lækkuðu mest en vísitölur þessara greina lækkuðu allar um tæp 10%.
Í Dubai eru það byggingafélög og og fjármálafyrirtæki sem hafa lækkað mest eða í kringum 10%. Er þetta fyrsti viðskiptadagurinn á hlutabréfamörkuðum í Sameinuðu furstadæmunum frá því að eignarhaldsfélag í eigu ríkisins í Dubai tilkynnti um að það það þyrfti að frysta afborganir af lánum í sex mánuði vegna erfiðrar fjárhagsstöðu. En lokað var fyrir viðskipti í fjóra daga í tilefni Eid trúarhátíðarinnar.
Seðlabanki Sameinuðu furstadæmanna tilkynnti í gær innspýtingu fjármagns til banka í dag og næstu daga.
Hækkun í Asíu
Hins vegar réttu hlutabréfamarkaðir úr kútnum í Asíu eftir mikið fall í síðustu viku. Í Hong Kong hefur Hang Seng vísitalan hækkað um 3,55%. í Seúl hefur Kospi vísitalan hækkað um 2,04% og í Tókýó nam hækkunin 2,91%.