Skjálfti á hlutabréfamörkuðum

Kauphölliní Dubai í morgun
Kauphölliní Dubai í morgun Reuters

Mikill titringur er á hlutabréfamörkuðum heimsins. Hlutabréfavísitölur lækkuðu mikið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en í Asíu réttu þær úr kútnum eftir mikla lækkun í síðustu viku. Helstu vísitölur í Evrópu hækkuðu í upphafi viðskipta en hafa nú lækkað á ný.

Í síðustu viku lýsti eignarhaldsfélagið Dubai World, sem er í eigu furstadæmisins Dubai, yfir greiðslustöðvun og að það muni ekki standa í skilum á 3,5 milljarða dala skuld sem fellur á gjalddaga í desember. Heildarskuldir Dubai World nema um 60 milljörðum Bandaríkjadala en samanlagðar skuldir furstadæmisins nema 80 milljörðum dala.

Í kjölfar tilkynningarinnar lækkuðu matsfyrirtæki lánshæfiseinkunn fyrirtækja í eigu furstadæmisins og tilheyrandi skjálftavirkni gætti á fjármálamörkuðum um heim allan.

Helstu hlutabréfavísitölur í Dubai og Abu Dhabi hafa lækkað um rúm 6% í morgun en fjármálamarkaðir í Sameinuðu furstadæmunum hafa verið lokaðir undanfarna daga vegna Eid trúarhátíðar múslima. Í gær tilkynnti Seðlabanki Sameinuðu furstadæmanna um innspýtingu á fjármálamarkaði til þess að tryggja að bankarnir hefðu nægt lausafé.

Á fyrsta klukkutímanum eftir opnun í morgun lækkaði aðalhlutabréfavísitalan í Dubai um tæp 7%  og í Abu Dhabi um 7,4%. Einkum voru það hlutabréf í fyrirtækjum í byggingaiðnaði og fjármálafyrirtækjum sem lækkuðu í verði. Hlutabréf Dubai World lækkuðu um 15%.

Á sama tíma hækkuðu hlutabréfavísitölur víða í Asíu en þær lækkuðu mikið í síðustu viku. Var hækkunin, samkvæmt BBC, einkum byggð á þeirri von að erfiðleikarnir í Dubai myndu ekki hafa áhrif á aðra fjármálamarkaði vegna ákvörðunar Seðlabanka Sameinuðu furstadæmanna að útvega bönkum nægt lausafé. 

Nikkei hækkaði um 2,9% í Tókýó, Hang Seng í Hong Kong hækkaði um 3,6% og í Sjanghæ nam hækkunin 2,5%. 

Þegar viðskipti hófust á helstu hlutabréfamörkuðum í Evrópu klukkan 8 í morgun hækkuðu flestar vísitölur. Það hefur hins vegar breyst og nemur lækkun FTSE vísitölunnar í Lundúnum nú 0,54%, í Frankfurt hefur DAX lækkað um 0,45% og CAC í París um 0,68%. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK