Breska viðskiptablaðið Financial Times segir, að þótt ástandinu í Dubai, þar sem hætta er á að ríkisfyrirtæki lendi í greiðsluþroti, hafi verið líkt við ástandið á Íslandi eftir bankahrunið séu hliðstæðurnar við Lettland mun meiri.
Í svonefndum Alphaville dálki í blaðinu segir, að Lettland sé sjálfstætt ríki, sem sé háð örlæti utanaðkomandi ríkja svo það geti staðið við skuldbindingar sínar.
Þá hefur komið fram í erlendum fjölmiðlum, að fjármálaráðherrar Evrópusambandsins hafi á fundi sínum í dag rætt um hættuna á því, að Grikkland verði „næsta Ísland" eins og það er orðað og verði í raun gjaldþrota. Ástæðan sé sú, að eftir gríðarleg útgjöld, meðal annars vegna ólympíuleikanna árið 2004, sé hætta á að landið geti ekki greitt opinberar skuldir.