Bæði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, ítreka í samtölum við Bloomberg fréttastofuna að íslensk stjórnvöld muni ekki komast lengra í samningum við Breta og Hollendinga um Icesave-skuldbindingar, en felst í frumvarpi því sem liggur fyrir Alþingi.
„Við getum ekki náð lengra í samningum," segir Steingrímur við Bloomberg en haft er eftir honum, að Ísland muni ekki reyna að fá fram breytingar á þeim samningi, sem gerður var í október.
„Ég er enn bjartsýnn á að frumvarpið verði samþykkt löngu fyrir jól," segir Steingrímur. Samkomulagið er háð því að Alþingi samþykki ríkisábyrgð á lán, sem Tryggingasjóður innistæðueigenda tekur hjá breskum og hollenskum stjórnvöldum.
Jóhanna Sigurðardóttir segir, að Ísland muni lenda í miklum vandræðum takist stjórnvöldum ekki að leiða samningana við Breta og Hollendinga til lykta.
„Ég er sannfærður um að sá samningur, sem nú liggur fyrir, er sá besti sem við gátum náð fram," segir Jóhanna. „Komi það í ljós síðar að Ísland var ekki skuldbundið samkvæmt lögum að ábyrgjast þessar innistæður munum við herma það upp á Breta og Hollendinga að taka málið upp að nýju."
Fram kemur í frétt Bloomberg, að skuldatryggingaálag á íslensk 5 ára ríkisskuldabréf hefur hækkað úr 353 punktum í októberlok í 411 punkta í gær.
Ísland samþykkti 19. október að taka að láni 2,35 milljónir punda hjá Bretum og 1,2 milljarða evra hjá Hollendingum vegna innlána, sem Landsbankinn safnaði í þessum löndum á Icesave-reikninga.
Miðað var við í samningunum að Alþingi myndi staðfesta þá fyrir 1. desember en ella gætu Bretar og Hollendingar innkallað lánin. Jóhanna segir að þeir hafi þó ekki gefið til kynna að gripið verði til slíkra aðgerða en frumvarpið er enn til meðferðar á Alþingi.
„Bretar og Hollendingar vita að við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fá þetta frumvarp samþykkt eins hratt og unnt er," segir Jóhanna við Bloomberg.