Verðhjöðnunarvofa á undanhaldi

Svo virðist að hættan á viðvarandi verðhjöðnunartímabil í þróuðustu hagkerfum heims fari nú þverrandi. Samkvæmt nýjum tölum frá Efnahags- og framfararstofnuninni (OECD) þá hækkaði neysluverð í aðildarríkjum stofnunarinnar á ársgrundvelli í október. Um er að ræða 0,2% hækkun að meðaltali í þeim þrjátíu ríkjum sem eiga aðild að stofnunni.

Frá júní til september í ár lækkaði neysluverð að meðaltali og var það í fyrsta sinn þar sem verðhjöðnun var viðvarandi í nokkra mánuði í aðildarríkjunum. Þetta undirstrikaði hættuna á víxlverkunum verðlækkana, launalækkana og minnkandi framleiðslu í OECD-ríkjunum en slík þróun varð meðal annars til þess að kreppan mikla á fjórða áratugnum var jafn djúp og langvarandi og raun bar vitni. Síðasta stóra hagkerfið sem lenti í slíkum vítahring var Japan á tíunda áratug nýliðinnar aldar.

Það að verðbólga mælist á ný bendir til þess að helstu seðlabankar heims fara nú að gefa henni meiri gaum en áður gripið hefur verið til mikilla lækkana á stýrivöxtum beggja vegna Atlantsála að undanförnu meðal annars til þess að koma í veg fyrir að hagkerfin renni inn í verðhjöðnunarskeið.

Eins og fram kemur í umfjöllun Dow Jones-fréttaveitunnar um síðustu verðbólgumælingu OECD voru það verðlækkanir á matvöru og orku sem leiddu lækkanir á neysluvörum í sumar. Kjarnaverðbólga - sem tekur ekki tillit til þessara þátta - hefur hækkað það sem af er ári og nam hækkunin í október 1,6% á ársgrundvelli. Samkvæmt mælingum OECD þá féll orkuverð um 9,2% í aðildarríkjum stofnunarinnar á tólf mánaða tímabilinu á undan október en lækkunin hafði numið 13,9% fram að september. Matvöruverð virðist hinsvegar halda áfram að falla en lækkunin nam 1% fram að október en 0,4% fram til september.

Þetta endurspeglar ágætlega mismunandi stöðu í þróuðustu hagkerfum heimsins. Seðlabankar í ríkjum á borð við Ástralíu, Ísrael og Noregi hafa þurft að hækka stýrivexti að undanförnu vegna aukinna verðbólgu en á sama tíma sýna mælingar OECD að verðhjöðnun var enn þá viðvarandi í ríkjum á borð Frakklandi, Bandaríkjunum, Finnlandi, Svíþjóð, Spáni, Írlandi og Japan í október. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK