Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor's hefur lækkað lánshæfismat sex fyrirtækja sem tengjast furstadæminu Dubai. Eru skuldabréf fyrirtækjanna nú komin í ruslflokk. Meðal þeirra er hafnafyrirtækið DP World, sem á og rekur hafnir víða um heim. Er þetta gert í kjölfar þess að ríkisstjórn Dubai lýsti því yfir að ekki væri ríkisábyrgð á skuldum Dubai World, sem er að hluta í eigu furstadæmisins.
Fyrirtækin sex eru: DP World, DIFC Investments, Jebel Ali Free Zone, Dubai Multi Commodities Centre Authority, Dubai Holding Commercial Operations Group og Emaar Properties PJSC.
S&P setti jafnframt fjóra banka í Dubai í ruslflokk vegna stöðu þeirra í fyrirtækjum í Dubai, þar á meðal í Dubai World og dótturfélagi þess Nakheel.
Lánshæfismat fyrirtækjanna sex og bankanna fjögurra er áfram á athugunarlista og er mögulegt að það verði lækkað enn frekar, samkvæmt tilkynningu frá S&P.
Bankarnir eru: Emirates Bank International PJSC (EBI), National Bank of Dubai (NBD), Mashreqbank (Mashreq) og Dubai Islamic Bank (DIB).