Hagnaður Íslandsbanka eftir skatta var 2356 milljónir króna á tímabilinu 15. október til 31. desember á síðasta ári, samkvæmt ársreikningi bankans, sem birtur var í dag.
Hreinar rekstrartekjur námu alls 37,6 milljörðum króna á tímabilinu. Þær eru að stærstum hluta tilkomnar vegna gengishagnaðar sem síðan er að mestu leyti gjaldfærður sem virðisrýrnun vegna skertrar greiðslugetu lántaka með tekjur í íslenskum krónum en lán í erlendum myntum. Virðisrýrnun útlána og krafna nam 47 milljörðum króna.
Í tilkynningu frá Íslandsbanka er haft eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra, að efnahagsreikningur bankans endurspegli ákveðið afturhvarf til hefðbundinnar bankastarfsemi á Íslandi þar sem útlán séu að stærstum hluta fjármögnuð með innlánum viðskiptavina.