Áhrif kreppunnar hér á landi eru enn sem komið er öllu vægari en flestir höfðu búist við, að mati Greiningar Íslandsbanka. Í Morgunkorni bankans segir að samdráttur vergrar landsframleiðslu á fyrstu 9 mánuðum ársins frá sama tímabili í fyrra hafi verið 6%, og virðist líklegast að samdráttur á árinu í heild verði nokkru minni en þau 8,5% sem Seðlabankinn spáði í síðasta mánuði.
Til samanburðar var samdrátturinn á sama tímabili 4,6% á evrusvæði, 5,2% í Bretlandi, 3,2% í Bandaríkjunum og 6,6% í Japan.
Greining Íslandsbanka segir, að á komandi fjórðungum muni væntanlega draga jafnt og þétt úr samdrættinum á ársgrundvelli. Á móti muni þó að sama skapi draga úr jákvæðu framlagi utanríkisviðskipta til hagvaxtar. Líklegast sé, að botninum í þróun vergrar landsframleiðslu verði náð á fyrri hluta næsta árs og að í kjölfarið muni hagkerfið taka að rétta hægt og bítandi úr kútnum.