Norski kaupsýslumaðurinn Endre Røsjø hefur stofnað nýjan vogunarsjóð ásamt öðrum norskum fjárfesti með það að markmiði að fjárfesta í endurreisn íslensks atvinnulífs. Er stefnt að því að sjóðurinn afli 2 milljarða norskra króna, jafnvirði 44 milljarða íslenskra króna og að skuldabréfin verði skráð í norsku kauphöllinni.
Norska blaðið Finansavisen hefur eftir Røsjø að hluti af fjármunum sjóðsins verði notaður til að taka þátt í endurreisnarsjóðnum, sem verið er að stofna fyrir tilstilli lífeyrissjóða.
Røsjø kom hingað til lands í sumar ásamt hópi fjárfesta til að skoða mögulega fjárfestingarkosti. Í kjölfarið lýsti hann því yfir að hann ætlaði að fjárfesta í MP banka fyrir 1,4 milljarða króna en af því varð ekki.