Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, gerir 12,5 milljóna kröfu í þrotabú Glitnis. Þetta kemur fram í kröfuskrá Glitnis, sem Morgunblaðið hefur undir höndum.
Fram kom í fréttatilkynningu frá slitastjórn sem birt var í fyrr í kvöld að ákveðið verið að hafna öllum kröfum frá þeim sem sátu í framkvæmdastjórn bankans fram að gjaldþroti hans. Framkvæmdastjórnin öll gerir kröfur í búið. Hæstu kröfuna meðal meðlima framkvæmdastjórnar gerir Eggert Þór Kristófersson, áður framkvæmdastjóri eignastýringar á Ísland, eða um 113 milljónir króna.
Vilhelm Már Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Fjárstýringar og viðskiptaþróunar gerir ríflega 32 milljóna kröfu í þrotabúið. Fyrrverandi fjármálastjóri Glitnis, Rósant Már Torfason, lýsir tæplega 37 milljóna krónu í þrotabú Glitnis. Einar Örn Ólafsson, sem gegndi stöðu framkvæmdastjóra fjárfestingabankasviðs á Íslandi gerir rúmlega 32 milljóna kröfu.
Lægstu kröfu allra framkvæmdastjórnarmeðlima gerir Magnús Arngrímsson, eða um 4.7 milljóna króna kröfu. Magnús veitti fyrirtækjasviði Glitnis forstöðu.
„Hlutfallslega fáar launakröfur eru gerðar við slitameðferð Glitnis þar sem flestir almennir starfsmenn hafa þegar fengið greitt. Slitastjórn hefur ákveðið að hafna sem forgangskröfum launakröfum fyrrum framkvæmdastjórnar Glitnis og forgangskröfum svokallaðra heildsölu- og peningamarkaðslána.
Kröfum um kaupauka og bónusa hefur einnig verið hafnað. Þá hefur slitastjórn jafnframt hafnað því að víkjandi skuldabréf njóti stöðu almennra krafna en fjöldi slíkra krafna er um 2300 og nemur samanlögð fjárhæð þeirra tæplega 180 milljörðum króna," að því er segir í fréttatilkynningu sem slitastjórn Glitnis sendi frá sér á miðnætti.
´