Krafa Landsýnar ehf., félags Bjarna Ármannssonar fyrrum forstjóra Glitnis, upp á 3,9 milljarða króna, var frágengin og átti samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ekki að birtast í kröfulista þeim sem skilanefnd sendi frá sér í gær.
Skilanefnd Glitnis sendi í dag frá sér fréttatilkynningu, þar sem fram kom að Bjarni Ármannsson hefði endurgreitt 650 milljónir króna sem hann hefði fengið frá bankanum vegna starfsloka sinna 2007. Í tilkynningunni sagði einnig að einu kröfur Bjarna og félaga hans á hendur bankanum næmu 273 milljónum króna.
Það stangaðist á við upplýsingar úr kröfulistanum, sem birtust á mbl.is fyrr í dag, um að krafa Bjarna og félaga hans næmi rúmum fjórum milljörðum króna. Skýringin er semsagt sú, að búið var að ganga frá fyrrnefndri 3,9 milljarða króna kröfu áður en listinn var birtur.