Hrein eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris var 1.744 milljarðar króna í lok október og hafði aukist um 9,6 milljarða króna í mánuðinum að því er fram kemur á vef Seðlabankans.
Af einstökum eignaliðum munar þar mestu um 13,6 milljarða króna hækkun á íbúðabréfaeign sjóðanna sem gæti endurspeglað hækkun á verðlagi frá ágúst til september, lækkun á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa hérlendis eða jafnvel kaup lífeyrissjóða á íbúðabréfum, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.
Nálgast stöðuna fyrir hrun
„Hrein eign lífeyrissjóðanna í krónum talið er nú hægt og bítandi að nálgast það sem hún var fyrir hrun bankanna í fyrra. Þannig var hrein eign í lok október 26,7 mö.kr. minni en hún var í lok september í fyrra sem jafngildir um 1,5% lækkun að nafnvirði. Sé hins vegar tekið tillit til verðbólgu minnkaði hrein eign um 11% að raunvirði á tímabilinu. Þó ber að hafa í huga að enn eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi endanlegt tap sjóðanna af fyrirtækjaskuldabréfum og fleiri eignum í kjölfar bankahrunsins. Liggur því nokkur óvissa um endanlegt mat á eignum lífeyrissjóðanna og ber þess vegna að taka mati á hreinni eign sjóðanna með fyrirvara," samkvæmt Morgunkorni.
Stærsta áfallið fyrir sjóðina síðastliðið haust var af innlendri hlutabréfaeign. Í lok september í fyrra áttu lífeyrissjóðirnir um 150,7 milljarða króna í innlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum en mánuði síðar var sú eign komin niður í 41,6 milljarða króna.
Staða þeirra á innlendum hlutabréfamörkuðum er enn lítil og nú í lok október var eign sjóðanna í innlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum 35,7 milljarðar króna sem svarar til 2% af hreinni eign þeirra.
Á hinn bóginn var vægi erlendra hlutabréfa og hlutabréfasjóða af hreinni eign í lok október hærra en það hefur verið að jafnaði, eða um 22,1%.