Bresk sveitar- og bæjarfélög hóta því að höfða mál gegn Glitini en sveitarfélögin óttast að fá ekki nema brot af því sem þau áttu inni á reikningum bankans þegar hann fór í þrot haustið 2008. Kröfur þeirra eru ekki metnar sem forgangskröfur í bú Glitnis en þær eru metnar sem forgangskröfur hjá Landsbankanum, samkvæmt frétt í Financial Times.
Bresk sveitar- og bæjarfélög hóta því að höfða mál gegn íslensku bönkunum en sveitarfélögin óttast að fá ekki endurgreiddar 150 milljónir punda, 31 milljarð króna, sem þau áttu inni á innlánsreikningum bankanna er þeir hrundu haustið 2008. Bresk sveitarfélög áttu alls 900 milljónir punda, 184 milljarða króna, á reikningum í íslensku bönkunum, samkvæmt frétt viðskiptablaðsins Financial Times.
Bæjar- og sveitarfélög hafa fengið um 100 milljónir punda endurgreiddar frá íslensku bönkunum en gert er ráð fyrir frekari endurgreiðslum í vor.
Alls voru 217 milljón pund inni á reikningum Glitnis. Er óttast að einungis 30% fáist upp í þær kröfur þar sem kröfur sveitarfélaganna flokkast ekki sem forgangskröfur í búið.
Stephen Jones, fjármálastjóri sambands sveitarfélaga í Bretlandi, mun mæta á kröfuhafafund í Reykjavík á fimmtudag til þess að fjalla um málefni sveitarfélaganna samkvæmt frétt FT.
Segir FT að í síðasta mánuði hafi krafa sveitarfélaga á Landsbankann verið skilgreind sem forgangskrafa en alls áttu þau 414 milljónir punda á reikningum Landsbankans. Það þýði að þau fái innistæður sínar nánast að fullu endurgreiddar.
Hótar samband sveitarfélaga að höfða mál gegn íslensku bönkunum ef einungis 25-30% fást upp í kröfur þeirra. Haft er eftir Steinunni Guðbjartsdóttur, stjórnarformanni slitastjórnar Glitnis, að hún eigi alveg eins von á því að bresku sveitarfélögin reyni að fá ákvörðuninni hnekkt fyrir dómstólum. Hún segir ástæðuna fyrir því að kröfurnar séu ekki forgangskröfur vera þá að samkvæmt íslenskum lögum séu þau ótryggð.