Heildareignir Landsbankans (NBI) eru 944 milljarðar króna, þar af nema útlán til viðskiptavina bankans um 608 milljörðum króna. Eiginfjárframlag íslenska ríkisins er 122 milljarðar króna, lausafé 39 milljarðar, hlutafjáreign er 30 milljarðar króna og skuldabréfaeign 24 milljarðar króna.
Fulltrúar ríkisins og Landsbankans rituðu undir stofnefnahagsreiknings bankans í morgun.
Eins og fram hefur komið hefur verið samið um að Landsbankinn gefi út247 milljarða króna skuldabréf til Landsbanka Íslands. Skuldabréfið er í erlendum gjaldmiðlum til tíu ára og af því verða aðeins greiddir vextir fyrstu fimm árin.
Í tilkynningu kemur fram að með þessu er Landsbankanum tryggð erlend fjármögnun sem miklu muni skipta fyrir íslenskt efnahagslíf. Þá er gert ráð fyrir að gefin verði út hlutabréf til gamla bankans að fjárhæð 28 milljarðar króna sem svarar til 20% af heildarhlutafé Landsbankans.
„Heildarfjárhæð skuldabréfsins og hlutabre´fanna samsvarar mati Landsbankans á yfirteknum eignum umfram skuldir, en er lágmarksverðmæti eignanna að mati skilanefndar og ráðgjafa hennar. Fari svo að verðmæti yfirfærða eigna reynist meira en mat Landsbankans gerir ráð fyrir mun bankinn gefa út viðbótarskuldabréf til þrotabús Landsbanka Íslands hf. sem gæti numið allt að 92 milljörðum króna, en þess í stað fengi ríkissjóður áðurnefnd hlutabréf að fjárhæð 28 milljarðar króna til baka. Óháður aðili mun annast lokamat á verðmæti eignanna í árslok 2012," samkvæmt tilkynningu.
Fortíð bankans engum dulin
Ásmundur Stefánsson, bankastjóri Landsbankans, segir að bankinn byggi á arfleifð Landsbanka Íslands hf. „Fortíð bankans er engum dulin og þau mistök, sem gerð hafa verið á næstliðnum árum hafa reynst samfélaginu öllu og sérstaklega starfsfólki bankans þungur baggi að bera. Þessi sterki hópur býr hinsvegar yfir þekkingu og reynslu sem hann sækir áratugi aftur í tímann og brýnt er að nýta vel þegar horft er fram á veginn," segir Ásmundur í tilkynningu frá bankanum.
Þar kemur fram að markaðshlutdeild bankans meðal fyrirtækja sé um 40% og ríflega 27% meðal einstaklinga. Eignarhald hans sé skýrt og erindi hans sömuleiðis. Erlend fjármögnun sé tryggð með skuldabréfinu sem Landsbankinn gefi út til Landsbanka Íslands hf. Þetta sé gríðarlega mikilvægur þáttur í rekstri Landsbankans og ekki síður fyrir íslenskt atvinnulíf í heild sinni, enda eigi það ekki kost á annarri erlendri fjármögnun sem stendur.