Misráðin stefna í ríkisfjármálum

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Sverrir Vilhelmsson

Í þeirri stefnu, sem stjórnvöld hafa markað í ríkisfjármálum, felst takmarkaður niðurskurður útgjalda og veruleg aukning skattheimtu. Þessi leið er, að mati Viðskiptaráðs, afar misráðin og dregur úr sjálfbærni ríkisfjármála til framtíðar. Kemur þetta fram í skýrslu, sem ráðið kynnti í dag.

Í skýrslunni segir m.a. að við núverandi aðstæður sé heppilegra að stjórnvöld velji hagnýtar leiðir sem byggja á raunsæi og varðstöðu um heildarhagsmuni þjóðarinnar. Varar Viðskiptaráð t.d. við þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á skattkerfinu, sem það telur leiða til mun flóknara kerfis sem sé bæði letjandi fyrir efnahagslífið og muni til lengri tíma ekki skila þeim tekjum, sem ríkisstjórnin reiknar með. Þá gagnrýnir Viðskiptaráð það að jöfnuði í ríkisfjármálum virðist eiga að ná nær eingöngu með skattahækkunum, þvert á það sem ákveðið var með stöðugleikasáttmálanum svokallaða.

Ganga má lengra í niðurskurði

Í skýrslunni er að finna nokkrar tillögur Viðskiptaráðs um hvernig ná megi jöfnuði í ríkisfjármálum með léttbærari hætti en framlögð áform ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir. Tillögur ráðsins fela m.a. í sér aðra og einfaldari nálgun á skattahækkanir. Í stað þess að fjölga skattþrepum eða leggja á nýja skatta verði skattprósenta á gildandi skatta hækkuð, þó ekki eins mikið og ríkisstjórnin áformar. Þá telur Viðskiptaráð að lengra megi ganga í niðurskurði útgjalda í ráðuneytum, selja megi eignir ríkissjóðs og draga saman í launakostnaði hins opinbera. Þá megi efla fjárlagaferlið, en reynslan sýni að iðulega fari ráðuneyti og ríkisstofnanir umtalsvert fram úr fjárlögum.

Segir Viðskiptaráð að hagfellt skattkerfi sé einn helsti grundvöllur langtímasamkeppnishæfni þjóða og mikilvæg forsenda þess að bati hagkerfisins verði sem skjótastur

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK