Tony Shearer, sem var forstjóri breska bankans Singer & Friedlander þegar Kaupþing yfirtók hann árið 2005, hefur skrifað Turner lávarði, stjórnarformanni breska fjármálaeftirlitsins, og hvatt til þess að fram fari opinber rannsókn á starfsemi breska bankans eftir að hann komst í íslenska eigu.
„Í þágu allra þeirra, sem töpuðu fé, þá þurfum við að fá upplýst nákvæmlega hvað gerðist frá yfirtökunni til fallsins," hefur Daily Telegraph eftir Shearer. „Og stofnunin ber að hluta til ábyrgðina vegna þess að þetta gerðist á hennar vakt.
Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office, tilkynnti í gær að hafin sé formleg rannsókn á því hvort lög hafi verið brotin í starfsemi Kaupþings í Bretlandi fyrir fall bankans.
Rannsóknin beinist einkum að því hvaða aðferðum var beitt til að fá sparifjáreigendur og fjárfesta til að leggja fé inn á Kaupthing Edge reikningana. Grunur leikur á að röngum og villandi upplýsingum hafi verið komið á framfæri til að laða breska fjárfesta að. Einnig eru til rannsóknar ákvarðanir stjórnenda sem talið er að hafi leitt til þess að umtalsverð verðmæti voru tekin út úr Kaupþingi dagana fyrir fall hans bankans.
Efnahagsbrotanefndin hefur unnið náið með embætti sérstaks saksóknara frá því í september og skipst hefur verið á upplýsingum, m.a. um Kaupþing.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að SFO vinni mál sín þannig að fyrst sé farið í eftirgrennslan. Síðar er lagt mat á hvort hefja eigi rannsókn. Í breskum fjölmiðlum í gær kom fram að þessi rannsókn gæti leidd til þess að starfsmenn bankans yrðu ákærðir í Bretlandi fyrir brot á hegningarlögum sem gæti leitt til fangelsisdóma.
Fram hefur komið í breskum blöðum, að fyrrum stjórnendur Kaupþings hafi ráðið lögmannsstofuna Burton Copeland, sem sérhæfir sig í fjársvikamálum, til að gæta hagsmuna sinna vegna rannsóknarinnar. Fram kemur í blaðinu Independent í dag, að enginn hjá lögmannsstofunni hafi í gær viljað tjá sig um málið.