Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors hefur ákveðið að leggja niður sænska dótturfélagið Saab Automobile eftir að viðræður við hollenska bílaframleiðandann Spyker fóru út um þúfur í dag. Gert er ráð fyrir að síðasti Saab bíllinn komi af færibandinu í verksmiðju félagsins í Trollhättan í lok mars.
Fram kemur í frétt Reutersfréttastofunnar, að GM hafi ákveðið að leysa fyrirtækið upp og greiða kröfuhöfum. Í kjölfar þessara frétta lækkaði gengi hlutabréfa Spyker um 13% í hollensku kauphöllinni.
GM hafði fyrr á árinu gert samning við sænska sportbílaframleiðandann Koeningsegg Group um að kaupa Saab en þegar til átti að taka tókst Koeningsegg ekki að tryggja fjármögnun kaupanna. Síðan hefur GM átt í viðræðum við Spyker sem nú hefur verið hætt.
Kínverski bílaframleiðandinn BAIC keypti í byrjun vikunnar framleiðslurétt á tækni og búnaði frá Saab fyrir jafnvirði um 25 milljarða íslenskra króna.