Danska blaðið Berlingske Tidende birtir í dag stóra grein þar sem útskýrt er í máli og myndum hvernig íslenskir kaupsýslumenn fóru að því að eignast fé og fyrirtæki um miðjan áratuginn. Íslendingar fjárfestu töluvert í dönsku atvinnulífi á þessum tíma.
Blaðið segir að íslensk skattayfirvöld hafi nú ráðist til atlögu við þá aðferð, sem oft var beitt þegar fyrirtæki voru skráð í íslensku kauphöllinni. Þessi aðferð sé vel þekkt frá Bandaríkjunum á 9. áratug síðustu aldar og hafi leitt til fjölda gjaldþrota. Nú séu Íslendingar að rannsaka hvort skattalög hafi verið brotin.
Samkvæmt útskýringum Berlingske er aðferðin í sex þrepum. Menn hyggi á að yfirtaka fyrirtækið A og stofni fyrirtækið B í því skyni. B sé með lítið eigið fé en fái lán hjá fyrirtækinu A fyrir 75-80% af kaupverðinu. Síðan séu A og B sameinuðu og fyrirtæki A haldi áfram rekstri með skuldir B í farteskinu.
Á móti þessum skuldum A sé nú færð viðskiptavild svo reikningar fyrirtækisins líta áfram vel út. A er síðan skráð í kauphöll á mun hærra gengi en upphaflega kaupverðið gaf tilefni til og þrátt fyrir þær skuldir, sem nú séu í fyrirtækinu.