Almenningur væntir þess að verðbólgan verði 10% eftir 12 mánuði samkvæmt könnun sem Seðlabankinn lét gera í desember og birti niðurstöður um í gær. Miðað við þessar niðurstöður væntir almenningur þess að verðbólgan komi til með að verða meiri eftir ár en hún hefur verið síðustu mánuði en eins og kunnugt er var verðbólgan nú í desember 7,5% og 8,6% í nóvember.
Þó er ljóst að almenningur telur að verðbólgan
nú sé mun meiri en hún er í raun. Þannig kemur fram í könnunni að
almenningur telur að verðbólgan sé 11%, að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.
„Fyrir rúmu ári síðan, nánar tiltekið í októbermánuði, vænti almenningur þess að verðbólgan yrði 14% eftir 12 mánuði. Þegar sú könnun var gerð var verðbólgan einmitt á svipuðu róli en almennt virðast verðbólguvæntingar almennings mótast að miklu leyti af þeirri verðbólgu sem er á þeim tíma sem könnunin er gerð fremur en verðbólguspám.
Niðurstöðurnar að þessu sinni eru þó frábrugðnar þeim sem verið hafa á síðustu tveimur árum að því leyti að nú eru væntingar um verðbólgu eftir ár hærri en verðbólgan er sama tíma og könnunin er gerð, en það hefur ekki gerst síðan í október 2007. Ljóst er að verðbólguvæntingar almennings eru enn miklar og langt frá 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans," að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.