Fjöldi krafna sem lýst var í þrotabú gamla Glitnis barst of seint. Heildarupphæð þessara krafna nemur milljörðum króna. Hluti þeirra var sendur til Írlands fyrir mistök. Þetta kom fram í fréttum RÚV.
Frestur til að lýsa kröfum í þrotabú gamla Glitnis rann út 26. nóvember. Tæplega 8.700 kröfur bárust í búið og nemur heildarupphæð þeirra rúmum 3.400 milljörðum króna. Í frétt RÚV kom fram að hluti krafnanna hefði borist of seint eða bara alls ekki. Haft var eftir Páli Eiríkssyni í slitastjórn Glitnis að um það bil 100 kröfur hefðu borist of seint og enn væru kröfur að berast. Hann sagði fjárhæðirnar mismunandi, sumar hverjar næmu milljónum dala. Reynt yrði að láta reyna á réttmæti þessara krafna fyrir dómstólum hér á landi.