Töldu Edge-reikninga jákvætt skref

Breska fjármálaeftirlitið aðhafðist ekkert til að koma í veg fyrir að Kaupþing hæfi að bjóða upp á Edge innlánsreikninga í Bretlandi átta mánuðum áður en bankinn féll. Stofnunin taldi, að þetta væri jákvætt skref fyrir bankann og til þess fallið að styrkja lausafjárstöðu hans.

Þetta kemur fram í breska blaðinu Sunday Telegraph. Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar rannsakar nú formlega hvort lög um fjármálastarfsemi hafi verið brotin í starfsemi Kaupþings í Bretlandi fyrir fall bankans. Rannsóknin beinist einkum að því að upplýsa hvaða aðferðum var beitt til að fá sparifjáreigendur og fjárfesta til að leggja fé inn á Kaupthing Edge reikningana og hvort villandi eða röngum upplýsingum hafi verið komið á framfæri af hálfu bankans til að laða breska fjárfesta að. 

Breskir sparifjáreigendur lögðu 2,5 milljarða punda, jafnvirði 500 milljarða króna, inn á Edge reikninga frá apríl 2008 til október þegar bankinn féll.

Telegraph segist hafa eftir mjög háttsettum heimildarmönnum hjá fjármálaeftirlitinu, að stofnunin hafi haft áhyggjur af lausafjárstöðu dótturfélags Kaupþings í Bretlandi fyrir jólin 2007. En ekki var gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að Kaupthing hæfi að bjóða upp á Edge hávaxtareikninga í apríl þar sem talið var að það myndi styrkja fjárhagsstöðu bankans.

Blaðið segir, litlu hafi munað að Kaupthing Singer & Friedlander stæðist fjármálaáfallið í byrjun október sem sökkti íslenska fjármálakerfinu. Bresk stjórnvöld hafi hins vegar talið sig tilneydd að frysta eignir Kaupþings í Bretlandi vegna ótta við að fjármagn yrði flutt þaðan í stórum stíl til Íslands.

Breska fjármálaeftirlitið, sem hafði eftirlit með Singer & Friedlander, hefur neitað að upplýsa hvort það sé að rannsaka starfsemi bankans, sem er í greiðslustöðvun. En stofnunin segist, að sögn Telegraph, ekki hafa getað komið í veg fyrir, að Kaupþing yfirtæki Singer & Friedlander árið 2005 þrátt fyrir efasemdir um að nýju eigendurnir væru nægilega traustir.

Tony Shearer, sem var forstjóri breska bankans þegar Kaupþing keypti hann, hefur skrifað Turner lávarði, stjórnarformanni fjármálaeftirlitsins bréf og krafist opinberrar rannsóknar á starfsemi Singer & Friedlander eftir að bankinn komst í íslenskar hendur. 

Blaðið segir, að fall Kaupþings muni vera eina bankagjaldþrotið í fjármálakreppunni sem breskir sparifjáreigendur hafa tapað fé á. Yfir 4000 viðskiptavinir Kaupþings á eyjunni Mön hafa enn ekki fengið inneignir sínar á Edge-reikningum yfir 50 þúsund pund bættar þar sem breski innistæðutryggingasjóðurinn telur sig ekki þurfa að bæta íbúum á eyjunni tapið.

Bresk stjórnvöld greiddu þarlendum sparifjáreigendum 7,5 milljarða punda, jafnvirði 1500 milljarða króna, sem þeir áttu inni á reikningum íslensku bankanna þriggja í Bretlandi. Samkvæmt Icesave-samkomulaginu ábyrgist íslenska ríkið að 2,3 milljarðar punda, jafnvirði 460 milljarða króna, verði endurgreiddir.  

Frétt Sunday Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK