Bíða þar til staðan á Íslandi skýrist

Danska fjármálaráðuneytið segir, að Íslendingar fái ekki aðgang að frekari norrænum lánum fyrr en staðan á Íslandi hafi skýrst. Blaðið Berlingske Tidende hefur eftir ráðuneytinu, að eitt af skilyrðunum í lánasamningum Íslands við hin Norðurlöndin hafi verið að Íslendingar standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.

Berlingske segir, að staðan á Íslandi valdi stjórnvöldum í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi áhyggjum. Samið var um það í haust að Ísland fengi aðgang að jafnvirði samtals um 360 milljarða króna lánalínu frá Norðurlöndunum í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Fyrsti hluti lánsins, jafnvirði 54 milljarða evra, var greiddur til Íslands í desember.

Berlingske segir, að Ísland hafi fengið um 600 milljónir danskra króna, 14,5 milljarða íslenskra króna, að láni frá Dönum af alls 3,5 milljörðum danskra króna sem Danir hafi samið um að lána. Hins vegar fylgi dönsk stjórnvöld nú sömu stefnu og önnur Norðurlönd og vilji að staða mála skýrist á Íslandi áður en frekara lánsfé verði greitt út. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK