Fyrrum starfsmaður svissnesku bankasamsteypunnar UBS hóf afplánun á rúmlega þriggja ára fangelsisdóm í gær en fyrr í vikunni hafnaði bandarískur dómari því að fresta afplánun og að stytta dóminn. Maðurinn samþykkti að veita bandarískum skattayfirvöldum upplýsingar í skattsvikamáli sem UBS blandaðist inn í ásamt fjölda bandarískra viðskiptavina bankans.
Uppljóstrarinn, Bradley Birkenfeld, átti þess í stað að fá styttri dóm fyrir aðild sína að skattsvikunum en hann var dæmdur í þriggja ára og fjögurra mánaða fangelsi.
Veitti hann upplýsingar um einhverja þeirra 19 þúsund viðskiptavina UBS sem áttu að hafa lagt um 20 milljarða svissneskra franka inn á leynireikninga í Sviss. Uppljóstranir hans urðu til þess að bandarísk skattayfirvöld gátu endurheimt hluta peninganna sem svíkja átti undan skatti. En hann slapp hins vegar ekki alveg þar sem hann var dæmdur fyrir að aðstoða verktaka í Kaliforníu við að fela um 200 milljónir Bandaríkjadala á reikningum í Sviss og Lichtenstein.
Hann var afar reiður við bandarísk yfirvöld fyrr í vikunni og sagði í viðtali við CBS sjónvarpsstöðina á sunnudag að hann hefði veitt þeim upplýsingar í stærsta skattsvikamáli sögunnar. „Ég kom upp um 19 þúsund alþjóðlega glæpamenn. Og ég fer í fangelsi fyrir það," sag´ði Birkenfeld í viðtali við CBS.
Birkenfeld var dæmdur í ágúst, einungis tveimur dögum eftir að UBS og bandarísk yfirvöld komust að samkomulagi um að UBS samþykkti að veita upplýsingar um 4.500 viðskiptavini sem grunaðir voru um skattaundanskot.